mánudagurinn 3. desember 2007

Ađalfundur 2007

Aðalfundur Odda hf. á Patreksfirði var haldinn  30. nóvember 2007. Ársreikningur félagsins fyrir starfsárið 1.9.2006 til 31.8.2007 sýndi að reksturinn var félaginu hagstæður.  Rekstrartekjur voru 1.075 millj. og höfðu aukist um 25% frá fyrra ári.  Hagnaður var 63 millj.kr., en var árið á undan um 12 millj.kr.  Þetta er níunda árið í röð sem hagnaður er á rekstri félagsins.

 

Afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði var heldur lakari í ár en í fyrra en er þó viðunandi.  Þessi jákvæða niðurstaða sem fæst,  þrátt fyrir óhagstæða sterka krónu, er aðallega tilkomin vegna hagræðingar í vinnslu og útgerð.  Þá hefur hagstæð staða á erlendum mörkuðum og magnaukningar í kjölfar kaupa á aflaheimildum jákvæð áhrif. Einnig eru fjármagnsliðir af erlendum skuldum félagsins hagstæðir vegna gengisþróunar krónunnar.

 

Aðalfundur ákvað að greiða 7% arð til hluthafa.

 

Félagið fjárfesti á árinu í fiskvinnslubúnaði og fiskvinnsluhúsnæði fyrir um 80 milljónir króna.  Þá jók félagið hlutafé í eignarhaldsfélaginu Glámu.  En mestar voru fjárfestingar í aflaheimildum og námu um 1.2 milljörðum króna á árinu.   Þá fjárfesti félagið í minni verkefnum og er m.a. áfram unnið að  þorskeldistilraunir hjá dótturfélaginu Þóroddi ehf., en þær hafa staðið yfir í um 9 ár. Einnig var fjárfest í fiskvinnsluverkefni á Bíldudal,  sem ekki er enn séð fyrir endann á.

 

Stjórn félagsins var endurkjörin á fundinum.

Vefumsjón