Aðalfundur Odda hf 2006
Aðalfundur Odda hf. á Patreksfirði var haldinn 13. nóvember 2006.
Ársreikningur félagsins fyrir starfsárið 1.9.2005 til 31.8.2006 sýndi að reksturinn var mjög hagstæður. Samanlagðar rekstrartekjur fiskvinnslu og útgerðar voru 30% hærri en árið á undan og námu rúmum 1.000 milljónum króna. Afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði var mun betri í ár en í fyrra og þrefaldaðist milli ára. Þessi jákvæða breyting er bæði vegna hagstæðrar gengisþróunar á árinu 2006, en einnig vegna mikillar eftirspurnar á erlendum mörkuðum og magnaukningar í kjölfar kaupa á aflaheimildum á síðasta ári. Á móti kemur að fjármagnsliðir af erlendum skuldum félagsins eru mjög neikvæðir vegna gengisþróunar krónunnar.
Hagnaður var 12 millj. kr, en var árið á undan um 34 millj.kr. Þetta er áttunda árið í röð sem hagnaður er á rekstri félagsins.
Hin jákvæða afkoma síðastliðinna ára hefur gert það að verkum að eiginfjárstaða félagsins er nú um 373 millj. kr. og eiginfjárhlutfallið 28%. Þá er lausafjárstaðan viðunandi og er veltufjárhlutfallið 1,15.
Aðalfundur ákvað að greiða 7% arð til hluthafa.
Félagið fjárfesti á árinu í búnaði í fiskvinnslu fyrir um 40 milljónir króna. Þá jók félagið hlutafé í fiskeldisfélaginu Þóroddi ehf. ásamt Þórsbergi ehf. í Tálknafirði og fleiri aðilum. Miklar vonir eru bundnar við þorskeldistilraunir sem staðið hafa yfir í um 8 ár í Tálknafirði og 5 ár í Patreksfirði.
Framkvæmdastjóri Odda hf. er Sigurður Viggósson og stjórnarformaður Einar Kristinn Jónsson, rekstrarhagfræðingur. Aðrir lykilstjórnendur eru Skjöldur Pálmason framleiðslustjóri, Smári Gestsson yfirvélstjóri, Sverrir Haraldsson útgerðarstjóri og Jón Bessi Árnason skipstjóri.